Sókn er besta vörnin

Nú er lag að auka þorskkvótann eins og Einar ráðherra er að kanna. Það er gott og blessað og veitir ekki af auka útflutningstekjur og efla vinnu í landi. EN það verður að tryggja að þessi aukning verði ekki GJÖF til útvalinna.  Þennan kvóta sem aukningin nemur á að eyrnarmerkja sem   þjóðareign og er  byrjunin á því að kvótinn komist aftur í  þjóðarhendur. Ráðherrannn þarf að horfa á allar hliðar þessa máls og gæta þess að úthlutunin komi ekki sem köld vatnsgusa framan í almenning og ögri þeim á þessum köldu tímum. 


Kvóti og eignarhald

Kvótaumræðan er að verða háværari. Fiskútflutningur gefur góðar gjaldeyristekjur í árferði þar sem krónan er veik og allt þarf að gera til að efla tekjur landsins. EN aukning kvóta getur ekki gengið til útgerðarmanna sem gjöf. Nú er komið að þeim punkti að útgerðarmönnum sé ekki réttur kvótinn  á silfurfati. Það á að auka kvótann til þeirra báta sem skapa störf í landi, þ.e. handfæra- og dagveiðibáta, því þær veiðar nýtast  heildinni best. En viðbótarkvótinn á áfram að vera eign þjóðarinnar einsog allur fiskkvóti ætti að vera. Þegar grátkórinn hjá LÍU mun svo byrja að breima um  að þeir hafi þurft að þola skerðingar, þá er bara eitt svar við því. Já, núna þurfa allir að þola skerðingar í einhverri mynd og foréttindahópar heyra sögunni til.  Útgerðarmenn eru ekki verst staddi hópur þjóðarinnar í dag með hækkandi fiskverði og lækkandi oíuverði.


Jón og séra Jón

Birgir Ármannsson er sannkallaður málsvari og verjandi auðvaldsins. Hann sér engar ástæður til að frysta eignir auðmanna og sér á því marga annmarka. Er maðurinn ekki með á nótunum? Veit hann ekki að ALMENNINGUR er með sparnað sinn í frystingu samkvæmt fyrirskipun ríkisvaldins. Hér er ég að tala um peningamarkaðssjóðina sem eru í eigu ALMENNINGS ekki auðmanna. Þessir sjóðir eru í frystingu núna og eigendur þeirra venjulegt launafólk veit ekki hvenær þeir losna né hve mikið þeir fá til baka af þeim.  Það er greinilega munur á gjörðum sjálfstæðismanna gagnvart Jóni og séra Jóni.  ALMENNINGUR mun ekki gleyma því þegar kosið verður sem að  öllum líkindum verður fljótlega. Birgir Ármannsson það er tímabært að þú farir að leita þér að vinnu.

GLÆPUR OG REFSING

 

Einmana hrafn situr  á ljósastaur inni í miðri borginni. Hann er ránfugl og vill fá sinn skerf af kökunni. Gömul kona kastar brauðmolum af svölunum á nærliggjandi húsi, það er ætlað smáfuglunum. Hrafninn er stór og mikill og í augum smáfuglanna sem skipta tugum er hann glæsilegur en ógnvekjandi. Þeir bíða á hliðarlínunni þar til hrafninn klárar sig en hann er gráðugur og étur allt upp til agna. Síðan flýgur hann af stað, með miklu vænghafi  og virðist flúga létt þrátt fyrir stútfullan maga. Hann hverfur sjónum og heldur á aðrar slóðir. Vetur er mættur á miðju hausti og baráttan um brauðið verður  erfið fyrir menn og dýr. Stöku skepnur lifir þó áfram  lúkuslífi og þeytast um  háloftin í faratækjum fegnu fyrir stolið fé. En  þær eru á ferðinni í annarri lofthelgi en áður.  Þær hafa flúið glæpavettvanginn og ylja sér í glæsisnekkjunum og glæsivilliunum langt frá köldum vetri fórnanarlambanna. Það er gott að vera laus við þessar skepnur.  

Hrafninn er friðaður en það eru margir sem telja hann réttdræpan. Þegar skepnurnar birtast gráðugar á fjarlægum  slóðum geta þær ekki búist við að verða alfriðaðar eins og þær hafa verið hér á landi. Þar gilda önnur lögmál. Tími refsingarinnar mun renna upp. Munu skepnurnar sjá að sér og skila hinu stolna fé? Eða munu þær harsvífaðar sýna sitt innra eðli  og neita að viðurkenna glæpina. Glæpi  sem eru svo stórir í sniðum að jafnvel mafían bliknar.  Ákvörðunartakan liggur hjá glæpagenginu því yfirvaldið er svo laskað að það nær ekki að stjórna málinu.


Hvar eru börnin um helgina?

Litla ljóðið fór á vergang

flæktist inn í bloggheima

og villtist.

Hvernig kemst ég heim?

spurði það feimið.

Þú átt hvergi heima, svaraði talvan.

 

Þú getur alveg hangið hér.

Þú þarft ekki að þröngva þér inn í bók,

pikkaði talvan.

Verður það í lagi?

spurði ljóðið skjálfraddað.

Já já, svaraði talvan

bloggheimurinn er öllum opinn.

 

En lítið ljóð eins og þú þarft að fara varlega.

Af hverju? spurði ljóðið feimið.

Bloggheimar eru takmarkalausir og

það er ekki víst að neinn kæri sig um þig,

svaraði talvan með myndugleika.

Það skiptir ekki máli, hvíslaði ljóðið.

Ég læt lítið fyrir mér fara.

Mig langar bara að vera með,

sagði það af sinni alkunnu hógværð.

 

Ákall til foreldra og lögreglu

 

 

Jarðskjálftinn hreyfði bókstaflega við fólki. Þeir sem harðast fundu fyrir honum urðu fyrir áfalli. Náttúruöflin geta leitt yfir þjóðir og einstaklinga harmleiki sem fólk getur illa ráðið við. Þessvegna er mikilvægt að taka á því sem hægt er að taka á til að forðast aðra harmleiki.

Það er sagt að læknar á slysadeildinni setjist aldrei inn í bíl án þess að spenna beltin

Þeir hjóla ekki nema nota hjálm ---- Og þeir æfa ekki fótbolta

Hið síðastnefnda er kannski sett fram í tvíræðni, en fáir þekkja betur afleifingar slysa.

Það hefur bjargað lífum og limum hundruða jafnvel þúsunda Íslendinga að bílbeltanotkun er fest í lög.

Samt eru enn allt of margir lögbrjótar.

Er ekki kominn tími til ákveðnari aðgerða gegn lögbrjótum?

 

Notkun reiðhjólahjálma heyrir til undantekninga hjá allt of mörgum. Samt eru í fullu gildi umferðarlagareglur um að börn og unglingar undir 15 ára aldri eigi að nota hjálma.

Hlutverk foreldra er að vernda börnin og kenna þeim að fara eftir lögum og reglum. Þessvegna er það er VANRÆKSLA þegar foreldrar eru afskiptalausir gagnvart því að börnin brjóta umferðarlagareglur.

Vonandi þarf jörðin ekki að skjálfa undir fótum okkar til að við tökum við okkur.

  

Barnalán

Heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra, menntamálaráðherra og viðskiptaráðherra eiga samtals 16 börn. Hafa þau hafi lært eitthvað af börnunum? Hvar sjást þess merki að þetta eru foreldrar? Hver er stefna, hverjar eru AÐGERÐIR í barna og fjölskyldumálum? Ber málaflokkurinn þess merki að með völd landsins fari fjölskyldufólk?

Raunveruleiki ráðherranna er altjént annar en flestra, þau hafa völd til að taka ákvarðanir og fylgja þeim eftir.

Komast börnin þeirra ekki örugglega í tannréttingar? Komast þau ekki líka örugglega í talþjálfun og í keppnisferðir til útlanda? Komast þau i það sem þarf? Svarið er líklegast já, sem auðvitað er gott en réttlátt er að öll börn búi við jafnrétti.

Það sýnir ekki mikla mannkosti ef forréttindastéttir undirstrika aukna stéttaskiptingu á Íslandi með því að sitja aðgerðalaus hjá.


Þetta á ekki að líðast

Eitt best varðveitta leyndarmál allt of margra barna er hryllingurinn sem á sér stað í skólum og utan þeirra. Þessi hryllingur er oft ,,ósýnilegur”.

Einelti verður ekki lýst með orðum. Einelti eru illar, andstyggilegar og hræðilegar gjörðir fólks sem nefndir eru gerendur.

Einelti gefur til kynna að gerandinn eigi við vanda að glíma, vanda sem hann lætur bitna á tilteknum þolanda sem getur verið hver sem er.

Einelti er samfélagsvandamál sem sópað er undir teppið.

Hver er stefna stjórnvalda? Er hún til?

Hvað verja stjórnvöld miklum fjármunum til samtaka einsog Regnbogabarna?

Svarið er 0 krónur.

Þegar börn eru lögð í einelti þurfa þau annaðhvort að flytja á milli skóla eða láta pyntingarnar yfir sig ganga með öllu því sem því fylgir ævilangt, en gerandinn er kyrr.

Að barn þurfi að flýja skóla er óásættanlegt og óeðlilegt. Það bendir til að skólayfirvöld og foreldrar séu ekki strarfi sínu vaxin.

Einelti á ekki að líðast. Þegar einelti kemst upp á að taka á því strax, af festu og ákveðni. Það þarf að setja í gang ákveðið ferli og það þarf að leita ALLRA leiða til að stöðva pyntingarnar. Gerandinn á að fá alvarlega áminningu sem allt starfsfólk skólans þarf að vita um. Ef það dugar ekki eiga foreldrar að axla ábyrgð.

Það er þó dapurleg staðreynd að allt of oft svara foreldrar eða forráðamenn geranda ekki kalli skóla. Hvað heitir það? VANRÆKSLA.

Þá er bara eitt til ráða. Það á að hafa samband við Barnaverndaryfirvöld og tilkynna vanræksluna. Þetta er það ,,ráð” sem skólinn hefur þegar foreldrar sinna ekki uppeldishlutverkinu. Það er skylda skólayfirvalda að fylgja þessu eftir því hlutverk þeirra er líka að vernda börnin. ÖLL BÖRN, ekki síður þolendur en gerendur.


Öfundin er hættulegt afl

Það er svo makalaust hvað öfundssýki og eiginhagsmunasemi fær miklu áokað.

Fyrir nokkrum árum var sumarfrí kennara og nemenda lengra en það er í dag. Það þótti háværum hópi fólks ómögulegt. Kennarar voru í þeirra hópi forréttindahópur sem fékk allt of löng frí. Þessi hópur sem fólk öfundaðist út í er sama fólkið og ver lunganum úr deginum með börnunum okkar. Nei takk þetta var nú allt of gott.

En í stað þess að fagna með kennurum yfir sæmilegu sumarfríi sem reyndar var nú ekki svo langt þegar allt kom til alls, þá stóðu upp öfundarhópar og níddu skóinn af þeim. Hjá venjulegum siðmenntuðum þjóðum hefði þetta ,,sumarfrí” valdið ánægju, því það hefði gefið öðrum stéttum tækifæri til að þrýsta á vinnumarkaðinn um styttri vinnuviku og að taka tillit til þarfa fjölskyldufólks.

Ó, nei nei nei. Það hvarflaði ekki að hópnum sem blindaðist af öfund.

Svo nú er þannig komið að skólaár grunnskólabarna byrjar uppúr 20. ágúst og lýkur um 10. júní. Þökk sé öfundarseggjunum.

Og hverju hefur þetta skilað? Eru börnin betur menntuð, standa þau sig betur en áður? Því miður, svarið er nei. Hvernig verður með þau börn sem hafa fengið lengri skóladag og lengra skólaár en við fullorðna fólkið höfum nokkurn tíma þekkt?

Mun það verða spennandi kostur fyri þau að fara í langskólanám, hefur skólanám orðið meira spennandi fyrir vikið?

Hvernig þætti okkur fullorðnum að tekin yrði einhliða ákvörðun um lengingu vinnuvikunnar nú þegar ,,kreppa” gegnur yfir?

Það er ljóst að flestir foreldrar þurfa að vinna á sumarmánuðum. Hefði ekki verið nær lagi að þrýsta á stjórnvöld að bjóða þeim börnum sem þess þurfa tómstundarstarf við hæfi? Nei, enginn hugsaði út í það. Hvað segir það okkur? Það segir að áhuginn á lífi barnanna mætti vera meiri.

 

Börn og fullorðnir

Það eru til tveir raunveruleikar í þessum heimi. Þinn og minn. Milli þeirra er brú sem við göngum sjaldnast yfir. Erum við áhugalaus? Hvað heitir það á mannamáli? Eiginhagsmunasemi, sjálfhverfa, sjálfselska, flótti, ótti eða eitthvað annnað? Af hverju er brúin óyfirstíganleg?

Við áokum engu né breytum nokkru nema við göngum út á brúna. Til þess þarf hugrekki. Til þess þarf vilja. Til þess þarf fólk að lifa. Að lifa er að vera forvitinn, að hafa áhuga. Áhuga á öðru en sjálfum sér. Að verða eins og barn sem kannar heiminn og LÆRIR. Hvenær hættum við, þú og ég að læra, að lifa? Var það þegar barnæskunni sleppti og við urðum alvörugefin, leið og þunglynd af kringumstæðum sem oftast eru sjálfskapaðar. Hvar er hugrekkið? Hvað getur gerst ef við förum út á brúna? Jú, ég um mig frá mér til mín yrði í stórhættu og yrði kannski hér er ég um þig frá mér til þín. Á báða bóga.

Allt of oft heyrist sú hættulega fullyrðing að til að geta elskað aðra þurfi maður fyrst að elska sjálfan sig. Þessi rök eru gjarnan notuð af þeim sem elska og dýrka sjálfan sig öðrum ofar.

Sannleikurinn er auðvitað sá að af því að maður elskar aðra getur maður elskað sjálfan sig. Þetta vita allir sem hafa raunverulega elskað. Sjálfselskufræðin sem eru innrætt fólki í formi námskeiða, sjónvarpsefnis og fleira eru ekki lífið. Þau eru ekki raunveruleikinn. Þau eru tálmynd sem við eltumst við eins og ferðalangurinn elti skugga sinn forðum daga. Við náum ekki neinni tálsýn, ímynd eða hvað það nú heitir. Lífið er það sjálft eins og það kemur fyrir á hverjum degi. Þessvegna er ekki hægt að staðla lífið, setja það í hólf. Lífið er ekki og verður aldrei eins hjá mér og þér. EN til að við náum saman og skiljum hvort annað, og getum hjálpað hvort öðru verðum við að taka skrefið út á brúna. Ákvörðunin liggur hjá þér og mér. Hættum þessum ímyndunareltingarleik. Greinum kjarnann frá hisminu, sýnum að við erum viti borið fólk sem þorir, sem hefur áhuga á einhverju öðru en að flýja lífið.Að við þorum að lifa lífinu. Byrjum á þeim sem næst okkur standa. Þeim sem vilja og þrá að við séum með þeim og tökum þátt í lífi þeirra. BÖRNUNUM okkar. Börnin eru framtíðin, lífið sjálft. Ef við byrjum á þeim forréttindum að rækta börnin okkar, þá er jafn víst og að nótt fylgir degi að í framtíðinni verði lítil eða engin brú heldur samfelld græn og grösug tún.

Við virðumst ekki geta leyst ágreiningsefni og óréttlæti heimsins en hvert eitt lítið skref færir okkur fram á við og skrefin byrja hjá og með börnunum. Börnin eru og verða börnin okkar alla ævi, hvort sem þau eru ung eða fullorðin 5, 10, 20 eða 50 ára. Ef við byrjum á réttum enda þá eru meiri líkur á að allt annað gangi vel.

P.s. Vitið þið hver hún var konan sem þaut upp úr stólnum og sagði, - þá verð ég að flýta mér í vinnuna og kaupa mér nýjan bíl, þegar læknirinn sagði henni að hún væri með ólæknandi sjúkdóm og ætti eftir mjög stuttan tíma? Nei, segir þú kannast ekkert við hana. Bíddu annars, jú ég þekki svona konur og menn sem hegða sér eins og þau eigi endalaust líf.


« Fyrri síða

Höfundur

Dómarinn
Dómarinn
Dómarinnn hefur skoðanir á lífinu, er dómharður og gagnrýninn en mjúkur inn við beinið.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband